Á Suðurlandi er víða ófært, þungfært eða þæfingsfærð. Vegagerðin vinnur að mokstri en vegna skafrennings reynist verkið torvelt. Ófært er á Fljótshlíðarvegi og fleiri vegum.

Vegurinn á milli Kirkjubæjarklausturs og Markarfljóts er lokaður og verður ekki opnaður í dag. Austan við Kirkjubæjarklaustur er að mestu greiðfært en farið er að hvessa verulega. Ófært er á Öxi og Breiðdalsheiði en hálka og léleg færð á öðrum leiðum í nágrenni.
Sömu sögu er að segja af Norður- og Norðausturlandi en búið er að loka Möðrudalsöræfum og Vopnafjarðarheiði. Færð er mjög tekin að spillast á Vatnsskarði eystra og þæfingsfærð er á Öxnadalsheiði. Lokað er í Víkurskarði og við Þverárfjall.

Eins og fyrr segir er gul viðvörun í gildi á Austurlandi að Glettingi frá klukkan 13 til 21 í dag. Spáð er 13 til 18 metrum á sekúndu með snjókomu eða éljum og skafrenningi.
Á Austfjörðum er gert ráð fyrir hríð, norðaustan 15 til 20 metrum á sekúndu með snjókomu og skafrenningi til klukkan 23 í kvöld. Á Suðausturlandi er stormur, 18 til 25 metrar á sekúndu og snarpari vindhviður við fjöll, en gula viðvörunin gildir til klukkan 10 í fyrramálið.