Helga Vala vildi vita hversu margt starfsfólk hafi verið ráðið til heilbrigðisráðuneytisins frá því að ný ríkisstjórn tók við. Í svari segir að gerðir hafi verið tólf ráðningarsamningar frá 28. nóvember 2021. Ein skipan í embætti skrifstofustjóra en annað hafi verið ráðningar í störf; sjö tímabundnar ráðningar sem eru þá verkefnatengd störf og afleysingar vegna veikinda og fjórar ótímabundnar ráðningar. Segir að ráðið hafi verið í sex ný störf, þar af fjögur tímabundin.

Þá segir í svari að öll störf sem ekki eru tímabundnar ráðningar hafi verið auglýst; embætti skrifstofustjóra og fjögur störf sérfræðinga.
Þá er spurt hversu mikið ætlað er að hin nýju störf kosti. Í svari er vísað til þess sem áður sagði, að um sex ný störf sé að ræða frá því að ný ríkisstjórn tók við völdum. „Áætlaður viðbótarkostnaður vegna fjölgunar starfsfólks á kjörtímabilinu til loka árs 2025 gæti numið allt að 150 millj. kr.“