Þetta kom fram í máli Aðalsteins á blaðamannafundi í Karphúsinu í dag. Þar vísaði hann til þess að deilan væri í algjörum hnút sem lýsti sér best í því að verkföll væru á dagskrá og tal um verkbann hafi færst í aukana.
Sagði Aðalsteinn því að hann sæi þann eina kost í stöðunni að leggja fram miðlunartillögu, sem hann hafi heimild til samkvæmt lögum. Tillagan felur í sér að félagsmenn Eflingar fái sömu launahækkun og samið var um við Starfsgreinasambandið.
Þá felur tillagan einnig í sér að afturvirkni samninganna til 1. nóvember síðastliðins verði tryggð. Að auki felur tillagan í sér að allir félagsmenn Eflingar og aðildarfélög Samtaka atvinnulífsins sem kjarasamningurinn nær til, munu greiða atkvæði um samninginn.
Fram kom í máli Aðalsteins á fundinum að hann hefði skýra heimild í lögum til þess að leggja fram þessa tillögu. Bæði Eflingu og SA bæri skylda til þess að láta atkvæðagreiðsluna fara fram. Hefst hún á hádegi á laugardag og lýkur klukkan 17 á þriðjudag.
Með þessu sagðist Aðalsteinn vera að stíga inn í deiluna, enda væri engin lausn í sjónmáli.
Fréttin hefur verið uppfærð.