Deilt hefur verið um stærð lóðanna við Einimel í Vesturbænum árum og áratugum saman en há girðing hefur staðið allt að 14 metra út fyrir lóðamörk húsanna.
Fréttastofa Stöðvar 2 ræddi við Kjartan Magnússon borgarfulltrúa í dag.
Skiplagsráð Reykjavíkurborgar samþykkti nýtt deiliskipulag á fundi sínum í vikunni en í gildandi skipulagi sést glögglega að lóðamörkin eru nokkuð skýr. Girðingin nær þó langt út inn, á svæðið sem er merkt L á myndinni, en L merkir leiksvæði.
Nýtt deiliskipulag gerir ráð fyrir því að þrjár lóðanna, við Einimel 18, 24 og 26, stækki og tapar borgin þar með 236 fermetrum af landi. Lóðahafarnir fá að kaupa landið af borginni en ekki er ljóst á hvaða verði.

Kjartan Magnússon, borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins af afgreiðslu borgaryfirvalda.
„Já, þetta mál hefur náttúrulega verið rætt mikið og lengi. Það kom okkur á óvart að þetta yrði niðurstaðan gagnvart þessum almenningsgarði; að samþykkja útfærslu inn í hann. Þetta hefur verið rætt lengi og bara þegar maður skoðar gögn málsins þá sér maður að það er með ótvíræðum hætti verið að færa einkalóðir út í þennan almenningsgarð sem sundlaugartúnið er.“
En þekkir Kjartan dæmi þess að girðingar nái út fyrir lóðamörk í borginni?
„Já, ég hef heyrt um nokkur slík dæmi og auðvitað væri slæmt ef menn gætu vísað þar í þetta fordæmi og krafist þess að fá að halda slíkum lóðaútvíkkinum til streitu á þeim grundvelli. Það er það sem maður óttast,“ segir Kjartan Magnússon borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins.