Sport

Katla Björg, Gauti og Jón Erik fyrir Íslands hönd á HM

Sindri Sverrisson skrifar
Gauti Guðmundsson, Katla Björg Dagbjartsdóttir og Jón Erik Sigurðsson keppa á HM í næstu viku.
Gauti Guðmundsson, Katla Björg Dagbjartsdóttir og Jón Erik Sigurðsson keppa á HM í næstu viku. SKÍ

Heimsmeistaramótið í alpagreinum er hafið og eftir viku verða fulltrúar Íslands mættir á mótið, sem fram fer í Courchevel Meribel í Frakklandi.

Íslensku keppendurnir eru þrír að þessu sinni. Þetta eru þau Katla Björg Dagbjartsdóttir, Gauti Guðmundsson og Jón Erik Sigurðsson.

Öll þrjú munu þau keppa í bæði svigi og stórsvigi en fyrsti keppnisdagur Íslendinganna er 16. febrúar.

Dagskrá Íslendinganna á HM

  • 16. febrúar
  • Stórsvig kvenna, aðalkeppni
  • Stórsvig karla, undankeppni
  • 17. febrúar
  • Stórsvig karla, aðalkeppni
  • Svig kvenna, undankeppni
  • 18. febrúar
  • Svig kvenna, aðalkeppni
  • Svig karla, undankeppni
  • 19. febrúar
  • Svig karla, aðalkeppni

Katla Björg og Gauti voru bæði meðal keppenda á síðasta heimsmeistaramóti, á Ítalíu fyrir tveimur árum. Katla Björg keppti þar í svigi og stórsvigi og náði fínum árangri í stórsviginu þar sem hún endaði í 34. sæti. Hún féll hins vegar úr keppni í fyrri ferð í sviginu. Gauti keppti í undankeppni í sviginu en rétt missti af sæti í aðalkeppninni.

Hvorugur fulltrúa Íslands í alpagreinum á Vetrarólympíuleikunum í Peking í fyrra er með á HM að þessu sinni. Sturla Snær Snorrason tilkynnti í september síðastliðnum að skíðin væru komin á hilluna og Hólmfríður Dóra Friðgeirsdóttir er sömuleiðis ekki með á HM en hún hefur verið að glíma við meiðsli í vetur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×