Í kvöld tilkynnti ríkissáttasemjari að Efling og Samtök atvinnulífsins (SA), hafi komist að samkomulagi um að verkfallsaðgerðum Eflingar yrði frestað og kjarasamningsviðræður færu almennilega í gang. Næst funda fulltrúar beggja aðila á morgun klukkan tíu.
Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður Eflingar, segir í samtali við fréttastofu að það að starfsmenn í Eflingu hafi lagt niður störf hafi leitt til þess að loksins hafi eitthvað farið af stað sem hægt sé að kalla „alvöru kjarasamningsviðræður“.
„Það sem ég er tilbúin til þess að segja er að samninganefnd Eflingar tekur þessa ákvörðun ekki að illa athuguðu máli. Þetta er ekki auðveld ákvörðun fyrir okkur að taka og við komumst að þessari niðurstöðu því við trúum því að mögulega séum við hér að fara að eyða næstu dögum í eitthvað uppbyggilegt og gagnlegt sem mögulega skilar okkur góðum kjarasamningum,“ segir Sólveig.
Verkfallsfrestunin gildir til miðnættis á sunnudag. Aðspurð hvort þrír dagar dugi til þess að komast að niðurstöðu segir Sólveig að ef raunverulegur samningsvilji sé hjá báðum aðilum eigi tíminn að duga.
Mikil fagnaðarlæti heyrðust frá samninganefnd Eflingar nokkrum sinnum í kvöld á meðan verið var að bíða eftir niðurstöðu fundar Eflingar og SA. Sólveig segir þau ekki hafa tengst niðurstöðunni.
„Samninganefnd Eflingar er mjög samhentur hópur sem reynir, jafnvel í erfiðum aðstæðum, að hafa gaman. Fólk hefur verið að klappa yfir einhverju sem það þótti þess virði að klappa fyrir. Ég var ekki viðstödd klappið þannig ég veit ekki alveg hvað það var en þau hafa haft mjög góða ástæðu. Það er ég alveg sannfærð um,“ segir Sólveig.
Hún trúir því að nú muni samningaviðræður komast á skrið og mætir hún á morgun fullvilja til þess að hefja mikla vinnu við að leiða það til lykta.
„Ég vona að þessi ákvörðun sem við tókum, þessi risastóra og auðvitað erfiða ákvörðun, færi okkur eitthvað gott og uppbyggilegt,“ segir Sólveig.