„Það er ennþá mjög mikið bil á milli samningsaðila,“ sagði Ástráður er hann ræddi við fréttafólk eftir fundarhöld dagsins. Hann sagði að ef ekki gengi betur á morgun óttaðist hann að til verkfalls kæmi.
Verkfallsaðgerðum Eflingar hjá starfsmönnum Íslandshótela, Berjaya Hotels, Reykjavík Edition, Skeljungs, Samskipa og Olíudreifingu var nýverið frestað þar til á mánudaginn. Til að komast hjá verkfalli hafa deiluaðilar því bara einn dag til stefnu til að komast að samkomulagi um samninga eða áframhaldandi frestun.
„Sáttasemjari er alltaf tilbúinn,“ sagði Ástráður er hann var spurður hvort viðræður væru mögulega tilgangslausar. „Ef það myndast einhver glufa eða einhver tækifæri reynum við auðvitað að nota þau. Ég ætla að vona að ef þetta fer svona eins og við óttumst, að það gerist ekki með þannig hurðaskellum að það sé engin leið til baka.“
„Það er samt þannig, ég verð að segja ykkur hreint út, eins og er, að dagurinn í dag skilaði mjög litlu og eiginlega engu,“ sagði Ástráður.
Hann gat ekki sagt á hverju viðræðurnar hefðu strandað en sagði að deiluaðilar hefðu mismunandi sýn á hvaða svigrúm væru til staðar til launahækkana og bilið á milli þeirra væri einfaldlega of breitt.
Ástráður sagði að honum þætti vinnan hafa verið á jákvæðum forsendum. Hugmyndum hefði verið kastað fram og reynt hefði verið að finna leiðir til að brúa bilið milli deiluaðila.
„Svo kannski dreymir menn eitthvað fallega í nótt og kannski verður það lausnin. Hún kemur kannski til okkar í draumi.“