Efling hefur fallið frá fyrirhuguðum verkfallsaðgerðum í næstu viku eftir að Samtök atvinnulífsins samþykktu verkbann í gær með yfirgnæfandi meirihluta félagsmanna sinna í vel sóttri atkvæðagreiðslu.
Engin lausn virðist í sjónmáli í kjaradeilu Eflingar og SA.
Efling efndi til samstöðufundar í Iðnó í hádeginu þar sem Sólveig Anna ávarpaði samkomuna.
Fjöldi gesta kom Sólveigu Önnu Jónsdóttur formanni nokkuð á óvart. Hún blés baráttuhug í Eflingsfólk og hvatti til þess að láta ekki deigan síga.
Í framhaldinu lagði hópurinn upp í mótmælagöngu þar sem komið var við hjá Stjórnarráðshúsinu í Lækjargötu og óskað eftir því að þeir sem væru inni og færu með völd ræddu við mótmælendur.
Enginn svaraði kallinu.
Þaðan var haldið sem leið lá að Alþingishúsinu. Á leiðinni þangað ræddi Heimir Már Pétursson, fréttamaður okkar, við Sólveigu Önnu. Þar fullyrti hún að krafa Eflingar sneri ekki að hærri upphæðum en Samtök atvinnulífsins hefðu gert við aðra aðila undanfarnar vikur.
Hægt væri að landa samningi á einum degi ef vilji væri fyrir hendi hjá SA. Samtök atvinnulífsins hefðu gengið út úr viðræðum liðna helgi þar sem Efling taldi að litlu munaði á milli aðila. Það fullyrti sérfræðingur Eflingar einmitt í grein á Vísi í vikunni en formaður SA svaraði á sama vettvangi og hafnaði því. Eðlilegt væri að upplifun aðila í kjaradeilu væri ólík.
Að neðan má sjá viðtal Heimis Más við Sólveigu Önnu.
Sólveig Anna gekk um miðbæinn með gjallarhorn á lofti. Hún hvatti þingmenn til að koma út fyrir dyr þinghússins og eiga samtal við félagsmenn Eflingar. Þau væru skattgreiðendur og ekkert væri að óttast. Sagði hún um einstakt tækifæri að ræða til að eiga samtal við fólkið sem vinni mikilvæg störf og fái lág laun fyrir.




Enginn hafði svarað kalli Eflingar þegar þessi frétt fór í loftið.