Í fréttum Stöðvar 2 var rætt við Ólaf Þór Ólafsson, sveitarstjóra Tálknafjarðarhrepps, en eldurinn kviknaði í nýbyggingu Arctic Fish, sem átti að verða sú stærsta af þremur undir eldisker.
Í þorpinu á Tálknafirði búa um 270 manns. Þar var mönnum því brugðið að sjá bygginguna loga nánast stafnanna á milli.

„Þetta er áfall þegar svona gerist í hvaða samfélagi sem er. Þannig að okkur sannarlega brá.“
-Og þetta er bara einhver mikilvægasti vinnustaður Tálknafjarðar?
„Já. Þetta er mjög mikilvægur vinnustaður og starfsstöð, ekki bara í Tálknafirði heldur á öllum Vestfjörðum og fyrir landið allt, af því að þetta er stærsta seiðastöð landsins og hefði verið mikið áfall, - eða það hefði geta farið mikið verr heldur en það fór í gær.
Viðbragðsaðilar stóðu sig frábærlega þarna í gær. Slökkvistarf gekk það vel að það náðist að bjarga þeim verðmætum, - nánast að bjarga starfseminni sem er í gangi. Þannig að regluleg starfsemi heldur áfram. Það skiptir okkur miklu máli,“ segir sveitarstjórinn.

Sjálfur varð hann vitni að eldsvoðanum.
„Já, ég var nú bara með þeim fyrstu á vettvang þegar kviknaði í. Mér leist nú ekkert sérstaklega vel á þegar ég kom þarna að og sá eldtungurnar liggja frá húsinu.
Það er súrefnistankur þarna, fullur af fljótandi súrefni, sem var þarna við. Nei, þetta var bara svolítið svakalegt þarna í gærmorgun,“ segir Ólafur Þór, sveitarstjóri á Tálknafirði.
Hér má sjá frétt Stöðvar 2:
Hér má sjá beina útsendingu Stöðvar 2 frá vettvangi í gærkvöldi: