Aðalfundur Kvenréttindafélags Íslands fór fram í Iðnó og með rafrænum hætti í gær. Ný stjórn var kjörin á fundinum og Tatjana var endurkjörin formaður félagsins. Tatjana var fyrst kjörin formaður félagsins árið 2019.
Ásbjörg Una Björnsdóttir og Birta Ósk Hönnudóttir voru kjörnar í stjórn félagsins á fundinum. Þá voru Rut Einarsdóttir, framkvæmdastýra félagsins, og Tanja Teresa Leifsdóttir kjörnar sem fulltrúar félagsins til Mannréttindaskrifstofu Íslands. Brynhildur Heiðar- og Ómarsdóttir og Fríða Rós Valdimarsdóttir voru svo kjörnar sem fulltrúar félagsins til European Women's Lobby.
Skora á stjórnvöld
Ályktanirnar sem gerðar voru á fundinum voru tvær. Önnur þeirra varðar kynjafræði í kennaramenntun á Íslandi en fundurinn ályktaði að fagið eigi að vera skyldufag. Í dag er það valfag á Menntavísindasviði Háskóla Íslands.
„Til að tryggja að kynjafræði sem námsgrein nái til allra sem stunda kennaranám er nauðsynlegt að gera kynjafræði að skyldufagi í kennaranámi og öðru uppeldisnámi á háskólastigi á Íslandi,“ segir í ályktuninni.
Hin ályktunin er áskorun til íslenskra stjórnvalda. Skorað er á að þau sýni feminíska og pólitíska forystu og ábyrgð gagnvart mannréttindabrotum á konum.
Í ályktuninni eru lagðar fram eftirfarandi kröfur til stjórnvalda:
- Vera leiðandi rödd á alþjóðavettvangi þess efnis að öll ríki framfylgi Heimsmarkmiði 5 þannig að konur njóti fullra mannréttinda á heimsvísu.
- Fordæma glæpi gegn konum og minnihlutahópum sem framin eru af stjórnvöldum í Íran, Afganistan og öðrum þjóðríkjum
- Taka tillit til viðkvæmrar stöðu kvenna og minnihlutahópa sem leita hælis á Íslandi.
- Hvetja öll aðildarríki Evrópuráðsins til að fullgilda Istanbúlsamninginn skilyrðislaust og án tafar.
- Innleiða Kvennasáttmála Sameinuðu þjóðanna (CEDAW).