Veður

Gular við­varanir og mjög mikil snjó­flóða­hætta á Aust­fjörðum næstu daga

Atli Ísleifsson skrifar
Það dregur til tíðinda í kvöld þegar úrkoman eykst umtalsvert á Austfjörðum og undir Vatnajökli með austanátt og talsverðri slyddu eða snjókomu.
Það dregur til tíðinda í kvöld þegar úrkoman eykst umtalsvert á Austfjörðum og undir Vatnajökli með austanátt og talsverðri slyddu eða snjókomu. Landsbjörg

Gul viðvörun er í gildi á Suðurlandi og Suðausturlandi og verður til klukkan ellefu á fyrrnefnda svæðinu en til tíu á hinu. Í landshlutanum er austan stormur og snjókoma og mjög snarpar vindhviður eins og undir Eyjafjöllum og vestan Öræfa.

Á Suðausturlandi er hringvegurinn lokaður á milli Skaftafells og Jökulsárlóns og á Suðurlandi er lokað á milli Markarfljóts og Víkur.

Óvissustig vegna snjóflóðahættu er síðan í gildi á öllum Austfjörðum en hættustig í Neskaupstað, Seyðisfirði og Eskifirði. Ekki er vitað til þess að snjóflóð hafi fallið í nótt.

Á miðnætti taka síðan gular viðvaranir gildi á Austfjörðum þar sem spáð er talsverði eða mikilli snjókomu eða skafrenningi með þungri færð og lélegu skyggni. Á vef Veðurstofunnar segir að á Austfjörðum sé mikil snjóflóðahætta í dag en á morgun og hinn mjög mikil snjóflóðahætta.

Gular viðvaranir eru í gildi á suðurhluta landsins, en viðvörunin tekur gildi á Austfjörðum á miðnætti.Veðurstofan

Í hugleiðingum veðurfræðings á vef Veðurstofunnar segir að það verði austan hvassviðri eða stormur með suðurströndinni í byrjun dags og snjókoma. Það muni hlýna þegar líður á daginn þegar hlýtt loft sækir til landsins suður úr höfum og breytist þá úrkoman í slyddu eða rigningu. Hægari vindur annars staðar og lengst af úrkomulítið fyrir norðan. Hiti verður á bilinu eitt til sex stig seinni partinn, en nálægt frostmarki um landið norðaustanvert.

„Í kvöld dregur til tíðinda þegar úrkoman eykst umtalsvert á Austfjörðum og undir Vatnajökli með austanátt og talsverðri slyddu eða snjókomu. Á morgun heldur úrkomuþunginn áfram og fram á föstudag lítur út fyrir mjög mikla úrkomu á því svæði. Spár eru eilítið á reiki með hitastigið og þá hvort úrkoman breytist yfir í rigningu á einhverjum tímapunkti. Fólk er hvatt til að fylgjast vel með þróun spáa og útgáfu viðvarana,“ segir í hugleiðingum veðurfræðings.

Spákort fyrir klukkan 14 í dag.Veðurstofan

Veðurhorfur á landinu næstu daga

Á fimmtudag: Austlæg átt 13-20 m/s, en hægari suðvestanlands um kvöldið. Rigning eða slydda með köflum og hiti 2 til 8 stig, en snjókoma norðaustantil með hita nálægt frostmarki. Talsverð slydda eða snjókoma austast á landinu.

Á föstudag: Minnkandi austanátt, 5-15 m/s eftir hádegi. Rigning eða slydda með köflum á vestanverðu landinu, en samfelld snjókoma eða rigning á Suðausturlandi og Austfjörðum. Hiti breytist lítið.

Á laugardag: Suðlæg átt 5-13 m/s og skúrir eða slydduél, en slydda eða rigning suðaustantil og á Austfjörðum. Hiti 2 til 8 stig.

Á sunnudag: Snýst í suðvestan 8-13 m/s með éljum, en þurrt Norðaustanlands. Kólnar í veðri.

Á mánudag: Norðaustlæg átt og þurrt, en rigning eða slydda um landið suðaustanvert. Hiti 0 til 5 stig, en vægt frost á Norður- og Austurlandi.

Á þriðjudag: Útlit fyrir breytilega átt og bjart með köflum. Hiti breytist lítið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×