Lögregluyfirvöld í Íran greindu frá aðgerðunum í tilkynningu í gær. Þar segir að þær konur sem nást á mynd án höfuðslæðu muni fá „textaskilaboð sem varar þær við afleiðingunum“ eftir að búið er að persónugreina myndefnið.
Fjöldi íranskra kvenna hafa sagt skilið við höfuðslæður sínar í mótmælaskyni eftir dauða hinnar 22 ára gömlu Möhsu Amini sem lést í haldi siðgæðislögreglunnar í september á síðasta ári. Hún hafði verið handtekinn fyrir að brjóta í bága við höfuðslæðulög landsins.
Þrátt fyrir hörð viðbrögð öryggissveitanna og mikla áhættu á að vera handteknar er enn fjöldi kvenna sem ganga um slæðulausar á almannafæri. Þá hafa myndbönd af slæðulausum konum og árásum á þær hafa verið áberandi á samfélagsmiðlum undanfarna mánuði.
Ofbeldi, aftökur og eitranir
Eftir dauða Amini brutust út mikil mótmæli í Íran þar sem þúsundir manna flykktust út á götur landsins. Konur í Íran og víða annars staðar um heim tóku af sér höfuðslæðurnar og klipptu á sér hárið í mótmælaskyni.

Öryggissveitir landsins brugðust við mótmælunum með mikilli hörku og létust margir almennir borgar, þar á meðal fjöldi barna. Einnig voru tugir mótmælenda teknir af lífi fyrir þátttöku sína í mótmælunum. Þá veiktust mörg hundruð stúlkur í skólum landsins eftir mótmælin en talið er víst að það hafi verið eitrað fyrir þeim.
Á laugardaginn í síðustu viku bárust fréttir af tugum stúlkna í skólum borgarinnar Ardabil sem veiktust alvarlega eftir að hafa fundið sterkan fnyk og síðan bruna í hálsi. Talið er að það sé nýjasta bylgjan af þessum eitrunum.
Eftir írönsku byltinguna 1979 hefur írönskum konum verið skylt samkvæmt lögum að bera höfuðslæðu.