Skoðun

Unglingar eru ekki fullorðnir

Guðmundur Kári Þorgrímsson skrifar

Unglingar eru hvorki fullorðið fólk né lítil börn en börn samt sem áður. Þau eru þarna einhvers staðar á milli. Á þessum dásamlega aldri þar sem þau eru að vaxa, að stálpast en hafa ekki tekið út fullan þroska. Í dag, sem og á árum áður, upplifa unglingar mikla togstreitu milli þess að vera barn og fullorðinn einstaklingur. Þetta er hins vegar ekki einungis innri togstreita. Það er líkt og samfélagið leyfi unglingum ekki að vera unglingar. En þau eru einmitt það. Unglingar. Við setjum á þau kröfur um það að vera fullorðin í ákveðnum aðstæðum en börn í öðrum. Þau eiga að kunna að haga sér en daginn eftir eiga þau líka að kunna að fara bara út og leika sér. Þau eiga að kunna hluti sem þeim hafa aldrei verið kenndir. En samt eru þau ekki nógu þroskuð til að framkvæma þá sjálf. Þau eiga að vita hvernig þau eiga að bregðast við í aðstæðum sem þau hafa aldrei áður lent í. En samt eiga þau ekki að takast á við hlutina ein. Þau eiga að hafa vit á hlutum sem þau hafa aldrei áður heyrt um. En samt eru þau of vitlaus til að taka þátt í samræðunum hvort sem er. Við segjum við 14 ára barn að það sé „komið í fullorðinna manna tölu“ þegar það stendur á altari, þiggur oblátu og sýpur af víni. En barnið er ekki fullorðið. Það er unglingur sem á eftir að taka út svo mikinn þroska, gera svo mörg mistök, læra svo mikið. Við spyrjum unglinga af hverju þau hagi sér ekki eins og fullorðið fólk þegar þeim verður á í samskiptum, umgengni, námi. Á sama tíma segjum við þeim að þau séu börn og megi ekki taka eigin ákvarðanir, fara með fjárráð, haga svefni sínum sjálf. Hættum að gera þá kröfu til unglinga að þau hagi sér eins og fullorðið fólk. Leyfum þeim að vera það sem þau eru. Unglingar.

Höfundur er umsjónarkennari á elsta stigi í grunnskóla.




Skoðun

Skoðun

Börnin okkar

Halla Karen Kristjánsdóttir,Anna Sigríður Guðnadóttir,Valdimar Birgisson skrifar

Sjá meira


×