Lögmaðurinn sem um ræðir heitir Bryan Freedman en sá er meðal annars þekktur fyrir að hjálpa sjónvarpsfólki að fá miklar bætur frá fyrirtækjum efttir að leiðir þeirra skilja. Þá er hann einnig lögmaður leikarans Vin Diesel, leikstjórans Quentin Tarantino og söngkonunnar Mariah Carey.
New York Times greindi frá því í gærkvöldi að Lemon væri búinn að ráða Freedman og samkvæmt heimildum Business Insider hefur Carlson gert slíkt hið sama. Brian Stelter, fyrrverandi fréttamaður CNN, fullyrðir einnig að Carlson og Lemon hafi báðir ráðið Freedman í færslu sem hann birtir á samfélagsmiðlinum Twitter. Hann hefur þó ekki fengið það staðfest frá Freedman.
Þeir Carlson og Lemon virðast báðir vera ósáttir með hvernig starfslokum þeirra var háttað. Carlson segist einungis hafa fengið að vita það að hann væri að hætta tíu mínútum áður en það var tilkynnt opinberlega. Þá segist Lemon hafa fengið að heyra það frá umboðsmanni sínum að hann hefði verið rekinn en ekki yfirmönnum sínum.
„Ég er orðlaus. Eftir 17 ár hjá CNN hefði ég haldið að einhver af stjórnendunum hefðu haft sómann til að segja sér fréttirnar beint,“ skrifaði Lemon í tilkynningu sem hann birti á Twitter.