Flugvél úkraínska forsetans lenti á herflugvelli við Róm í morgun. Antonio Tajani, utanríkisráðherra Ítalíu, tók á móti honum. Ráðherrann sagði fjölmiðlum að Ítalir stæðu þétt við bakið á Úkraínumönnum og styddu aðeins friðaráætlanir sem varðveittu sjálfstæði Úkraínu.
Auk páfa ætlar Selenskíj að funda með Giorgiu Meloni, forsætisráðherra Ítalíu, og Sergio Mattarella, forseta. Meloni hefur einarðlega stutt hernaðaraðstoð til Úkraínu þrátt fryir að tveir hægriflokkar sem eiga sæti í samsteypustjórn hennar séu hallir undir Vladímír Pútín Rússlandsforseta.
Frans páfi sagði fréttamönnum í síðasta mánuði að Páfagarður ætti aðkomu að friðarviðræðum á bak við tjöldin án þess að fara nánar út í það. Hvorki Rússar né Úkraínumenn hafa staðfest að slíkar viðræður eigi sér stað.
Talið er að Selenskíj haldi næst til Berlínar. Það yrði fyrsta heimsókn hans til Þýskalands frá því að innrás Rússa hófst í fyrra.