Mocha er sagður öflugasti fellibylur sem gengið hefur inn í Bengalflóa í áratug. Honum fylgir úrhellisrigning og vindhraði upp á 54 metra á sekúndu. Spáð er allt að fjögurra metra háum sjávarflóðum sem gætu ógnað þorpum á láglendissvæðum, að sögn breska ríkisútvarpsins BBC.
Hjálparstofnanir óttast að bylurinn ógni meira en milljón róhingja sem hafast við í flóttamannabúðum í Cox's Bazar í Bangladess. Um hálf milljón þeirra eru börn, að sögn Reuters-fréttastofunnar. Neyðarskýli í skólum og hofum þar eru nú sögð yfirfull. Lögreglumenn hvöttu fólk til að leita skjóls og forðast ströndina í gær.
Stjórnvöld í Bangladess lýstu yfir hæsta mögulega viðbúnaðarstigi fyrir borgina. Veðurstofan þar í landi telur bylinn ógna lífi og eigum fólks í átta héruðum við strandlengjuna. Varað er við því að skýfall sem fylgir bylnum geti komið af stað aurskriðum á hlíðóttum svæðum, þar á meðal í Cox's Bazar.
„Að fellibylur lendi á svæði þar sem mannúðarástand er þegar svo slæmt er alger martröð sem hefur áhrif á hundruð þúsundir viðkvæmra einstaklinga sem hafa skert baráttuþrek eftir röð áfalla,“ segir A.I. Ramanathan Balakrishnan sem skipuleggur mannúðarstarf Sameinuðu þjóðanna í Bangladess.
Ástandið er ekki betra í Búrma. Talið er að sex milljónir manna séu aðstoðar þurfi í Rakhine í Búrma. Blóðug átök hafa geisað á milli andspyrnuhópa og hersins eftir að herforingjar rændu völdum í landinu fyrir tveimur árum.