Á Twitter-reikningi Manchester City birtist myndband skömmu eftir að dómari leiksins í leik Nottingham Forest og Arsenal flautaði leikinn af. Forest hafði unnið 1-0 sigur, tryggt sæti sitt í ensku úrvalsdeildinni og um leið tryggt það að Englandsmeistaratitilinn endaði hjá Manchester City.
Leikmenn Manchester City höfðu hópast saman á æfingasvæði félagsins og fylgst með leik Arsenal og það brutust út mikil fagnaðarlæti meðal þeirra í leikslok.
El momento... pic.twitter.com/xRz6XYHVdo
— Manchester City (@ManCityES) May 20, 2023
Ekkert lið á nú tölfræðilegan möguleika á því að skáka Manchester City í ensku úrvalsdeildinni.
Þetta er þriðji Englandsmeistaratitill Manchester City í röð og sá níundi í sögu félagsins.
Það verður væntanlega mikil gleði ríkjandi á Etihad-leikvanginum á morgun þegar að meistararnir taka á móti Chelsea.