Innlent

Met­um­ferð í maí

Kristinn Haukur Guðnason skrifar
Umferðin jókst mest á Norðurlandi, um 11,4 prósent.
Umferðin jókst mest á Norðurlandi, um 11,4 prósent. Vísir/Vilhelm

Umferð á hringvegum jókst um 2,3 prósent milli ára og hefur aldrei verið meiri í maí mánuði. Umferðin á Höfuðborgarsvæðinu dróst hins vegar saman.

Samkvæmt nýjum tölum Vegagerðarinnar hefur umferð aukist um 10 prósent frá áramótum sem er þrisvar sinnum meira en meðaltalsaukning frá árinu 2005. Það gæti orðið heildaraukning á árinu samkvæmt spálíkani umferðardeildarinnar.

Aukningin er samt misjöfn eftir svæðum og tímum. Miðað við maí mánuði áranna 2022 og 2023 hefur umferðin aukist mest á Norðurlandi, um 11,4 prósent. Hún hefur aukist um 9,9 prósent á Austurlandi, 7,2 á Suðurlandi, 3,3 á Vesturlandi en dregist saman um 1,5 prósent á Höfuðborgarsvæðinu.

Aukin umsvif

Frá áramótum hefur umferðin aukist mest á mánudögum, um 15,8 prósent en minnst á sunnudögum, um 2,7 prósent. Heilt yfir hefur umferðin aukist meira á virkum dögum en um helgar.

Vegagerðin segir þetta gefa vísbendingar um aukin umsvif í þjóðfélaginu. „Hafa verður þó í huga að með hækkandi stýrivöxtum, gæti dregið úr umsvifum í þjóðfélaginu, sem aftur getur dregið úr vexti umferðar,“ segir í tilkynningu Vegagerðarinnar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×