Fótbolti

Rauð spjöld og níðsöngvar er Bandaríkin fóru í úrslit

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Cesar Montes sá til þess að sauð upp úr í viðureign Bandaríkjana og Mexíkó í Þjóðadeild Norður- og Mið-Ameríku í nótt.
Cesar Montes sá til þess að sauð upp úr í viðureign Bandaríkjana og Mexíkó í Þjóðadeild Norður- og Mið-Ameríku í nótt. Matthew Ashton - AMA/Getty Images

Bandaríkjamenn unnu öruggan 3-0 sigur er liðið mætti Mexíkó í undanúrslitum Þjóðardeildar Norður- og Mið-Ameríku í nótt. Það eru þó ekki úrslit leiksins sem vekja mesta athygli, heldur lætin sem áttu sér stað á meðan leik stóð.

Bandaríkin mæta Kanada í úrslitum næstkomandi mánudag eftir sigurinn gegn Mexíkó í nótt, en Kanada hafði betur gegn Panama í hinum undanúrslitaleiknum, 2-0.

Christian Pulisic kom Bandaríkjamönnum yfir gegn Mexíkó í nótt á 37. mínútu áður en hann bætti öðru marki liðsins við strax á fyrstu mínútu síðari hálfleiks.

Eins og svo oft áður þegar þessar þjóðir mætast var þó allt á suðupunkti og þegar um tuttugu mínútur voru til leiksloka sauð loks upp úr. Cesar Montes gerðist þá sekur um ljótt brot þegar hann sparkaði Folarin Balagun til jarðar og við það brutust út mikil slagsmál.

Weston McKennie, leikmaður Juventus, virtist vera miðpunktur slagsmálanna og hann var að lokum rekinn af velli fyrir að taka Jorge Sanchez hálstaki.

Ricardo Pepi bætti svo þriðja marki Bandaríkjamanna við á 79. mínútu, aðeins fimm mínútum eftir að hafa komið inn á sem varamaður. Stuttu síðar brutust svo út önnur hópslagsmál sem enduðu með því að bæði lið misstu mann af velli. Sergino Dest var rekinn af velli úr liði Bandaríkjanna og mexíkóski varamaðurinn Gerardo Arteaga fór sömu leið.

Látunum var þó ekki lokið því undir lok leiksins gerði dómari leiksins hlé á leiknum. Ástæðan fyrir því var að glösum rigndi inn á völlinn úr áhorfendastúkunni og níðsöngvar um samkeynhneigða ómuðu. Áhorfendur voru látnir vita af því að hætta þyrfti leik ef níðsöngvarnir myndu halda áfram og þeim söngvum var því sem betur fer hætt.

Dómari leiksins flautaði að lokum til leiksloka þegar aðeins um sex af þeim tólf mínútum sem hafði verið bætt við höfðu verið spilaðar. Niðurstaðan 3-0 sigur Bandaríkjanna í leik sem verður líklega seint minnst fyrir úrslitin.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×