Fjölmiðlar í Detroit segja að Iyanna hafi verið stödd í bíl á Binder-stræti í Detroit þegar hún var skotin til bana rétt eftir miðnætti á fimmtudag. Viðbragðsaðilar fluttu Iyönnu í flýti á sjúkrahús en hún lést af sárum sínum.

Lögreglan í Detroit rannsakar nú morðið á Iyönnu en það er enn óvitað hver skaut hana til bana eða hver tildrög skotárásarinnar voru.
Iyanna á ættir að rekja til Íslands. Amma hennar, Ingunn Ása Ingvadóttir, er íslensk og móðir hennar, Esther María Mency, er hálfíslensk og fæddist hér á landi.
Samkvæmt DV er Esther María sjúkraliði og bjuggu þær mæðgur um tíma á Íslandi eftir að Iyanna fæddist. Iyanna gekk þá í leikskóla í Hafnarfirði.
Safna fyrir útförinni
Ingunn Ása hefur nú komið af stað söfnun fyrir útfararkostnaði og glötuðum tekjum Estherar Maríu vegna andlátsins á vefsíðunni Gofund.me.

Ingunn sagði í viðtali við Vísi að öll hjálp væri vel þegin og að erfitt væri að standa straum af jarðarfararkostnaðinum sem getur slagað upp í 10 þúsund Bandaríkjadali.
Á söfnunarsíðunni má einnig lesa fallegar lýsingar Ingunnar á dótturdóttur sinni.
Þar segir meðal annars „Iyanna var falleg ung kona. Hún var fyndin, klár og færði okkur svo mikla gleði.“
„Hún var ekki aðeins yndislegt barnabarn heldur einnig yndisleg dóttir. Eftir því sem hún komst til ára varð hún besta vinkona móður sinnar. Saman hlógu þær og hún elskaði ekkert meira en heimagerðan mat móður sinnar.“
Þá segir einnig að hún hafi verið frábær stóra systir bróður síns, hins átján ára Elijah. Sársaukinn og sorgin sem hann finni nú fyrir sé gríðarlegur.
