Skoðun

Botn­laust hungur, skefja­laus græðgi

Sigurjón Þórðarson skrifar

Í upp­hafi kjör­tíma­bils setti mat­vælaráðherra af stað einn fjöl­menn­asta starfs­hóp Íslands­sög­unn­ar und­ir nafn­inu Auðlind­in okk­ar. Mark­miðið, að koma á sátt um stjórn fisk­veiða. All­ir vita að ís­lenska kvóta­kerfið hef­ur um ára­bil mis­boðið rétt­lætis­kennd þjóðar­inn­ar. Kvóta­kerfið hef­ur skilað helm­ingi minni afla á land en fyr­ir daga þess og kvótaþegar hafa kom­ist upp með að selja helstu út­flutn­ingsaf­urð þjóðar­inn­ar í gegn­um skúffu­fyr­ir­tæki í skatta­skjól­um.

Í upp­hafi var alið á tor­tryggni þegar mat­vælaráðherra skipaði verk­stjóra und­ir­nefnd­anna, en það voru ým­ist fyrr­ver­andi for­stjór­ar stór­út­gerðanna eða ráðgjaf­ar sem hafa meira og minna verið að skrifa skýrsl­ur í beit og álit í þágu stór­út­gerðar­inn­ar.

Í stuttu máli var niðurstaða 464 blaðsíðna skýrsl­unn­ar sú að ís­lenska kvóta­kerfið væri frá­bært og gild­ir þá einu að það hafi stórskaðað sjáv­ar­byggðirn­ar. Fyr­ir ligg­ur álit Mann­rétt­inda­nefnd­ar Sam­einuðu þjóðanna um að kvóta­kerfið í nú­ver­andi mynd brjóti í bága við at­vinnu­frelsi og al­menna jafn­ræðis­reglu stjórn­ar­skrár­inn­ar. Helstu til­lög­ur nefnd­ar­inn­ar eru að breyta sem minnstu nema þá þeim 5,3% veiðiheim­ilda sem ætlað er að styðja við brot­hætt­ar sjáv­ar­byggðir. Í skýrsl­unni er talað um þetta sem fé­lags­leg­an stuðning eins og um ölm­usu sé að ræða.

Skýrsl­an mær­ir nú­ver­andi út­hlut­un­araðferðir Byggðastofn­un­ar. Sem dæmi má nefna að Byggðastofn­un hef­ur út­hlutað afla­marki til byggðalaga þar sem eng­in fisk­vinnsla fer fram. Úthlutað hef­ur verið til fyr­ir­tækja í eigu er­lendra auðmanna og til út­gerða sem komn­ar eru upp fyr­ir leyfi­legt kvótaþak og þannig mætti lengi telja. Í skýrsl­unni kem­ur m.a. fram að hvorki sé vilji til að auka við strand­veiðar né taka á verðmynd­un á fiski og vigta fisk með sam­ræmd­um hætti. Þetta er í hreinni and­stöðu við þjóðar­vilj­ann um leið og það hygl­ir stór­út­gerðinni.

Vinnu­brögð mat­vælaráðuneyt­is­ins voru slík að þrenn sam­tök sem voru í sam­ráðsnefnd starfs­hóp­anna hafa hafnað því al­farið að vera bendluð við skýrsl­una.

Að sjálf­sögðu hefði átt að tryggja sam­ræmda frjálsa verðmynd­un á fiski, sam­ræmd­ar vigt­ar­regl­ur, end­ur­bæt­ur á byggðapott­um, end­ur­skoða ráðgjöf Hafró, tryggja opna veiði fyr­ir ónýtt­ar fisk­veiðiheim­ild­ir á síðari hluta fisk­veiðiárs, upp­boð á afla­heim­ild­um og stór­auka hlut strand­veiða.

Flokk­ur fólks­ins berst fyr­ir end­ur­reisn hinna blóm­legu sjáv­ar­byggða allt í kring­um landið. Við for­dæm­um þá aðför sem gerð hef­ur verið að þeim og skilið þær eft­ir í sár­um.

Það er dap­urt að sjá en um leið kem­ur ekki á óvart hvernig skýrsl­an af­hjúp­ar frekju­gang sæ­greif­anna og hús­karla þeirra í stjórn­kerf­inu. Það sjá all­ir sem sjá vilja að þeir sem allt hafa fá aldrei nóg. Þeir kunna sér ekki maga­mál.

Höfundur er varaþingmaður Flokks fólksins í Norðvesturkjördæmi.  




Skoðun

Skoðun

Börnin okkar

Halla Karen Kristjánsdóttir,Anna Sigríður Guðnadóttir,Valdimar Birgisson skrifar

Sjá meira


×