Maguire var á meðal varamanna Englands í gær í vináttuleik liðsins gegn nágrönnunum í skoska landsliðinu en hann kom inn í hálfleik og skoraði sjálfsmark í 3-1 sigri Englendinga.
Samkvæmt frétt Sky Sports fögnuðu stuðningsmenn Skota, hæðnislega, hverri heppnaðri sendingu sem Maguire átti. Maguire lenti í svipaðri uppákomu í leik með Manchester United gegn Arsenal í ensku úrvalsdeildinni á dögunum og var Southgate, í viðtali eftir leik í gær, spurður álits um umræðuna í kringum Maguire.
„Hvað stuðningsmenn Skotlands varðar þá skil ég þetta alveg, ég get ekki kvartað undan því að þeir láti sér detta svona í hug en þetta er þó afleiðing af fáránlegri meðferð sem Maguire hefur nú fengið yfir lengri tíma,“ sagði Southgate í viðtali eftir leik.
Hann telur að stuðningsmenn enska landsliðsins hafi áttað sig á stöðunni.
„Þetta er algjör hneisa. Enginn leikmaður hefur fengið þá meðhöndlun sem hann er að fá, ekki bara frá skoskum stuðningsmönnum, heldur einnig frá lýsendum, sérfræðingum og fleirum. Þeir hafa búið til eitthvað sem ég hef bara aldrei séð áður. Maguire hefur verið klettur fyrir enska landsliðið og hluti af sigursælasta enska landsliði síðustu áratugina.“
Maguire var keyptur til Manchester United frá Leicester á rúmar 89 milljónir punda eftir að hafa heillað hjá Leicester City.
Hjá Manchester United hefur honum ekki tekist að halda góðu gengi gangandi og hefur oft á tíðum fengið að heyra það frá stuðningsmönnum sem og knattspyrnusérfræðingum.