Innlent

Kokkinum sem lét fersk­metið standa hafnað í þriðju til­raun

Oddur Ævar Gunnarsson skrifar
Maðurinn fær ekki að skjóta máli sínu til Hæstaréttar.
Maðurinn fær ekki að skjóta máli sínu til Hæstaréttar. Getty/Per Winbladh

Hæsti­réttur hefur hafnað mál­skots­beiðni yfir­kokks á hóteli á Norð­vestur­landi sem hafði krafist þess að fá laun á upp­sagnar­fresti, or­lof, or­lofs­upp­bót og desem­ber­upp­bót eftir að hafa verið rekinn úr starfi.

Lands­réttur komst að þeirri niður­stöðu að hótelinu hefði verið heimilt að reka manninn. Hann hefði brotið al­var­lega gegn starfs­skyldum sínum vegna um­gengni sinnar við mat­væli, hrein­læti í eld­húsi og fram­komu hans við sam­starfs­menn. Auk þess taldist sannað að maðurinn hefði ekki notað stimpil­klukku vinnu­staðarins og við­haft rangar tíma­skráningar.

Haft er eftir heil­brigðis­full­trúa hjá Heil­brigðis­eftir­liti Norður­lands vestra, sem fór í eftir­lits­ferð á hótelið, að það hafi verið næst­versta eftir­lits­heim­sóknin sem hann fór í á sínum tuttugu ára ferli.

Enn fremur lýsti fyrr­verandi yfir­þjónn því að fersk­meti hefði verið látið standa við stofu­hita á borði í eld­húsi mat­reiðslu­mannsins og sagði hann það hafa verið að fara að líta illa út. Að­stoðar­hótel­stjóri sagði mat­reiðslu­manninn svo í­trekað hafa öskrað á starfs­fólk í eld­húsi þannig að gestir heyrðu til hans frammi í sal, jafn­vel þó þar væri spiluð tón­list.

Mat­reiðslu­maðurinn sagði í mál­skots­beiðni sinni til Hæsta­réttar að úr­slit málsins hafi veru­legt al­mennt gildi og sakar­efni þess for­dæmis­gildi á al­mennum vinnu­markaði. Enn­fremur að dómur Lands­réttar hafi ber­sýni­lega verið rangur. Hæsti­réttur hafnaði beiðininni og sagði hvorki unnt að líta svo á að úr­slit þess hafi veru­legt al­mennt gildi né að dómur Lands­réttar ber­sýni­lega rangur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×