Eins og fram hefur komið eru gular veðurviðvaranir Veðurstofu í gildi á höfuðborgarsvæðinu og á Vesturlandi í dag til klukkan 18:00. Samkvæmt upplýsingum frá slökkvilið höfuðborgarsvæðisins hefur verið farið í tvö útköll vegna dæluverkefna síðastliðinn sólarhring en að öðru leyti verið rólegt.
Óveður sum staðar fram á miðvikudag
Á vef Veðurstofunnar kemur fram að gefin sé gul veðurviðvörun frá klukkan 03:00 í nótt á Vestfjörðum og í Breiðafirði. Þar er spá norðan hvassviðri eða stormur og snjókoma.
Frá klukkan 06:00 í fyrramálið tekur appelsínugul veðurviðvörun gildi á Ströndum og Norðurlandi vestra. Klukkutíma síðar tekur slík viðvörun gildi á Norðurlandi eystra.
Að sögn Veðurstofunnar er von á norðvestan hvassviðri eða stormi og talsverðri snjókomu á heiðum. Rigning eða slydda en snjókoma á heiðum, allvíða talsverð eða mikil úrkoma. Færð mun því versna ört á fjallvegum og samgöngutruflanir eru líklegar.

Veðurviðvaranirnar eru í gildi til klukkan 03:00 aðfaranótt miðvikudags á Ströndum og Norðurlandi vestra en til klukkan 06:00 á miðvikudagsmorgni á Norðurlandi eystra.
Gular veðurviðvaranir taka svo gildi frá klukkan 08:00 á þriðjudagsmorgun á Miðhálendinu til klukkan 06:00 á miðvikudagsmorgun. Sami litur er svo í gildi á Austurlandi að Glettingi frá kl. 11:00 á þriðjudag til kl. 16:00.
Þar er spáð rigningu eða slyddu en snjókoma á heiðum. Á Austfjörðum tekur gul veðurviðvörun gildi klukkan 12:00 til 17:00 á þriðjudag og á Suðausturlandi klukkan 11:00 og er hún í gildi þar til klukkan 23:00 á þriðjudagskvöld. Veðurviðaranir taka aftur gildi kl. 23:00 í þessum landshlutum á þriðjudagskvöld og eru í gildi til hádegis á miðvikudag.
Á Suðurlandi er spáð norðvestanstormi og gul veðurviðvörun í gildi frá kl. 08:00 á þriðjudagsmorgni og fram til klukkan 03:00 á aðfaranótt miðvikudags. Spáð er snörpum vindhviðum við fjöll, hvassast undir Eyjafjöllum, sem varasaman verða ökutækjum sem viðkvæmar eru fyrir vindi.