Eldurinn kom upp í herbergi á neðri hæð hússins um fjögurleytið í gær. Einn var inni í herberginu þar sem eldurinn kom upp og var hann fluttur alvarlega slasaður á sjúkrahús. Í samtali við fréttastofu segir Eiríkur Valberg, lögreglufulltrúi hjá miðlægri deild, að maðurinn hafi látist á gjörgæsludeild.

Ekki liggja fyrir upplýsingar um aldur eða þjóðerni mannsins sem lést. Eiríkur segir að tveir aðrir sem einnig voru fluttir á slysadeild séu á batavegi. Eldsupptök eru ókunn en miðlæg deild lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu fer nú með rannsókn málsins.

Fjöldi fólks, mest erlent verkafólk, býr í húsnæðinu þar sem eldurinn kom upp. Funahöfði 7 er að mestu í eigu tveggja félaga sem eru í eigu þriggja manna; Péturs Árna Jónssonar, framkvæmdastjóra HEILD fasteignafélagsins og aðaleiganda útgáfufélags Viðskiptablaðsins, Jóns Einars Eyjólfssonar, stjórnarmanns hjá ELJU starfsmannaþjónustu, og Arnars Haukssonar, sem starfað hefur sem stjórnandi hjá ELJU.
Félögin heita Akrotiri ehf. og Agros: Akrotirie ehf. Þá á félagið ÞR eignir ehf, sem er að stórum hluta í eigu lífeyrissjóða, stórt rými í byggingunni. Fram kemur í fasteignaskrá að Funahöfði 7 sé skrifstofu- og iðnaðarhúsnæði.