Ísak Sigurðsson, formaður FSMA samtakanna, segir að félagið hafi fengið þær gleðifréttir í dag að Lyfjastofnun hafi samþykkt greiðsluþátttöku hjá fullorðnum á lyfinu. Í tilkynningu á vef stofnunarinnar kemur fram að breytingarnar taki gildi 1. nóvember.
Í tilkynningunni er farið yfir feril málsins og segir þar að ástæða þess að stofnunin endurskoðaði fyrri ákvörðun sína sé að um miðjan júlí var greiðsluþáttaka lyfsins samþykkt í Noregi fyrir fullorðna, með skilyrðum. Í Danmörku er greiðsluþátttaka samþykkt fyrir sjúklinga yngi en 25 ára, einnig með ákveðnum skilyrðum.
„Um framkvæmd greiðsluþátttökumála í því sem snýr að leyfisskyldum lyfjum er í reglugerð einmitt kveðið á um að Lyfjastofnun skuli taka mið af því hvernig málum sé háttað annars staðar á Norðurlöndum,“ segir í tilkynningunni og jafnframt að stofnunin hafi heimild til að endurskoða fyrri ákvarðanir um greiðsluþátttöku lyfja, ýmist að beiðni hagsmunaaðila eða að eigin frumkvæði í ljósi breyttra aðstæðna eða nýrra upplýsinga.
Ellefu fengu ekki lyfið
Ísak er einn ellefu einstaklinga á Íslandi sem er með SMA sem hingað til hafði ekki fengið lyfið. Fjórir höfðu fengið það en alls eru fimmtán með sjúkdóminn á landinu.
Í tilkynningu Lyfjastofnunar til félagsins kom fram notkun lyfsins verði takmörkuð við nýjar meðferðarleiðbeiningar Landspítalans. Félagið hefur enn ekki fengið leiðbeiningarnar.
„Næsta skref hjá okkur er að ræða við okkar lækni um að fá lyfið. Við eigum reyndar eftir að sjá þessar meðferðarleiðbeiningar frá Landspítalanum en vonum að það verði engar hindranir þar.“