Þetta kom fram í máli ráðherra í sérstakri umræðu um sameiningu framhaldsskóla á Alþingi í dag. Tilkynnt var um áform um sameiningu framhaldsskóla í byrjun september. Ráðherra fundaði meðal annars með skólameisturum Menntaskólans á Akureyri og Verkmenntaskólans á Akureyri sem voru báðir jákvæðir fyrir sameiningu.
Það voru hins vegar ekki nemendur við MA. Um miðjan september afhenti forseti Hugins, nemendafélags MA, ráðherra undirskriftarlista með á fimmta þúsund undirskriftum þar sem áformunum var mótmælt. Forsvarsmenn helstu fyrirtækja á Akureyri mótmæli og þingmenn létu í sér heyra.
Gagnrýnisraddir heyrðust líka varðandi viðræður um sameiningu Flensborgarskólans í Hafnarfirði og Tækniskólans, Kvennaskólans í Reykjavík og Menntaskólans við Sund auk Fjölbrautaskóla Suðurnesja og Keilis.
„Þegar þetta samtal fór af stað þá ýttum við þessum áformum til hliðar að sinni á meðan við erum að útfæra nýja tímalínu,“ sagði Ásmundur Einar á Alþingi í dag. Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir þingmaður VG kallaði eftir umræðunni.
Inga Sæland, formaður Flokks fólksins, hrópaði ferfalt húrra fyrir því að ráðherrann léti af „þessari ófremdarframgöngu sinni í áttina að sameiningu skólanna.“
Ásmundur sagðist aldrei hafa verið hvatamaður um sameiningu skóla aðeins til að sameina skóla. Fjölmargar áskoranir væru í menntakerfinu sem kallaði á breytingar til að styrkja rekstrargrundvöll framhaldsskólanna. Þeirra á meðal mikill kostnaður sem fylgdi því að koma nemendum af erlendum uppruna í gegnum kerfið, fólki í iðnnámi og fólki með fötlun.
Hann sagðist fagna þeirri pólitísku samstöðu sem hefði komið í ljós í umræðunni að finna aðrar lausnir en sameiningu.