Aðalheiður Jónsdóttir teymisstjóri neyðarvarna hjá Rauða krossinum segir allt hafa gengið vel í fjöldahjálparstöðvum þeirra í nótt. Alls gistu 125 í fjöldahjálparstöðvunum, 35 í Reykjanesbæ, 30 á Selfossi, 60 í Kórnum.
„Það gengur allt vel. Starfsfólk er til taks með það sem getur komið upp. Það voru ekki allir með næg föt þegar þau fóru og fólk misvel búið. Við reynum að aðstoða eftir þörfum,“ segir Aðalheiður.
Skráning gangi vel
Í gær kom fram í fréttum að Grindvíkingar hafi ekki allir verið búnir að skrá sig eftir rýminguna. Hún segir að fleiri hafi bæst við síðan þá en hvetur fólk til þess að ljúka skráningu í síma 1717 hafi það ekki enn lokið henni.
Rauði krossinn auglýsti í gær eftir húsnæði fyrir Grindvíkinga. Aðalheiður segir töluvert marga búna að skrá húsnæði sitt eða herbergi, en húsnæðið sé misjafnt.
„Það hleypur á hundruðum,“ segir Aðalheiður um það húsnæði sem hefur verið boðið fram. Hún segir að í dag verði farið greiningarvinnu til meta hvað er hægt að nýta af því.
Grindvíkingar sem vantar húsnæði geta skráð það hér og þau sem hafa húsnæði í boði geta skráð það hér.
Rauði krossinn hóf jafnframt söfnun í gær fyrir neyðarvarnir þeirra.