Benedikt Gunnar Ófeigsson, jarðeðlisfræðingur hjá Veðurstofunni, var einn þeirra vísandamanna sem fóru inn í Grindavík í dag. Hann segir að markmiðið hafi fyrst og fremst verið að ræða við viðbragðsaðila á svæðinu og sjá ummerki eftir jarðhræringarnar þar undanfarið.
„Það var pínu erfitt að horfa upp á skemmdirnar og sjá hvernig þetta fer með heimili fólks. Þetta var svolítið sláandi,“ sagði hann í kvöldfréttum Stöðvar 2 í kvöld. Hann sýndi einnig jarðhræringarnar með myndrænum hætti í beinni útsendingu.
„Þróunin er sú að við erum að sjá meira og meira landris við Svartsengi. Þá sjáum við merki um virkni við Sundhníksgíga og það er einhver kvika líklega að flæða inn í kvikuganginn.“
Þá segir hann að eldgos gæti enn hafist hvenær sem er og að líklegast sé að það kæmi upp í Svartsengi, milli Hagafells og Sýlingarfells.
Atvinnustarfsemi og búseta tvennt ólíkt
Í gær hófu ýmis fyrirtæki í Grindavík starfsemi sína á ný í Grindavík og það hélt áfram í dag.
Kemur ekki til greina að hleypa íbúum inn aftur nú þegar starfsemi er hafin á ný?
„Ég held að það sé of snemmt að fara að ræða það. Við metum þetta náttúrulega frá degi til dags en það er dálítið mikið annað að vera með fólk vakandi á staðnum, sem getur farið, það er hægt að koma því í burtu af staðnum mjög hratt, heldur en að vera með fólk sem sefur þarna og er með alla sína muni. Það er alveg alveg sitt hvor hluturinn og ég held að það verði aðeins að bíða að ræða það að fólk fari að sofa þarna.“