Stjörnukonur höfðu verið á miklu skriði undanfarnar vikur í Subway-deild kvenna, en liðið mátti svo þola tap gegn toppliði Keflavíkur í síðustu umferð.
Liðið þurfti að hafa fyrir hlutunum gegn Fjölniskonum í kvöld og voru einu stigi undir í hálfleik, 39-38. Gestirnir frá Garðabænum mættu þó ákveðnir til leiks í síðari hálfleik og skoruðu 25 stig gegn 13 stigum heimakvenna í þriðja leikhluta.
Fjölniskonur klóruðu í bakkann í fjórða leikhluta en Stjarnan fagnaði að lokum sex stiga sigri, 66-72.
Katarzyna Trzeciak var stigahæst í liði Stjörnunnar með 31 stig, en í liði Fjölnis var Korinne Campbell atkvæðamest með 27 stig.
Þá vann Þór Akureyri öruggan 33 stiga sigur gegn Snæfelli á sama tíma, 65-98. Þrátt fyrir að vera sjö stigum undir eftir fyrsta leikhluta leiddu Þórsarar með 14 stigum í hálfleik og gerðu svo gott sem út um leikinn í þriðja leikhluta.
Lore Devos átti frábæran leik fyrir Þórsara og skoraði 37 stig fyrir liðið.