Víða verður þurrt veður og bjartir kaflar, en lítilsháttar él við austurströndina. Fram kemur í hugleiðingum veðurfræðings Veðurstofunnar að svolítil él gætu látið á sér kræla á stöku stað við vesturströndina seint í dag. Á vef Vegagerðarinnar, umferd.is, kemur fram að víðast er greiðfært en þó hálka eða hálkublettir víða.
Á morgun verður vestan og norðvestanátt, ýmist gola eða kaldi. Skýjað að mestu og sums staðar dálítil él, en léttskýjað suðaustan- og austanlands. Frost yfirleitt á bilinu núll til tíu stig.
Mikil veðurviðbrigði
Þá kemur fram að undir miðja viku gæti veðrið breyst. Á miðvikudag er útlit fyrir allhvassa eða hvassa sunnanátt með talsverðri rigningu og hlýnar. Síðan snýst í suðvestan hvassviðri eða storm á fimmtudag með éljum og kólnar aftur niður að frostmarki.
„Þetta verða mikil viðbrigði frá rólegu veðri síðustu daga og um að gera að láta þessa veðrabreytingu ekki koma sér á óvart,“ segir í hugleiðingum veðurfræðings.
Veðurhorfur á landinu næstu daga
Á mánudag:
Vestan og norðvestan 3-10 m/s. Skýjað og sums staðar dálítil él, en léttskýjað suðaustan- og austanlands. Frost 0 til 10 stig.
Á þriðjudag:
Suðlæg átt 3-8 m/s á austanverðu landinu, þurrt og bjart veður og frost 4 til 12 stig. Gengur í sunnan 8-13 vestantil og þykknar upp með svolítilli snjókomu, en slydda eða rigning um kvöldið og hlýnar.
Á miðvikudag:
Sunnan 13-20 og rigning, talsverð úrkoma sunnan- og vestanlands. Hiti 2 til 8 stig. Vestlægari um kvöldið með skúrum eða éljum.
Á fimmtudag:
Suðvestan 15-23 og él, en þurrt að kalla á Austurlandi. Hiti kringum frostmark.
Á föstudag:
Minnkandi suðvestanátt og él, en síðar vaxandi sunnanátt og rigning.
Á laugardag:
Útlit fyrir sunnan- og suðvestanátt með rigningu.