Sport

Fá brjósta­mjólk frá Serenu Willi­ams

Sindri Sverrisson skrifar
Serena Williams eignaðist sína aðra dóttur í ágúst en átti fyrir Olympiu, sem hún heldur hér á eftir sigur á ASB Classic árið 2020.
Serena Williams eignaðist sína aðra dóttur í ágúst en átti fyrir Olympiu, sem hún heldur hér á eftir sigur á ASB Classic árið 2020. Getty/Hannah Peters

Bandaríska tennisgoðsögnin Serena Williams ákvað að hjálpa þeim sem á þurfa að halda með því að gefa brjóstamjólk sína.

Williams greindi frá því í færslu á Instagram að hún hefði nýverið verið í New York og verið þar með talsvert umframmagn af brjóstamjólk úr sér í kæli, eins og hún sýndi á myndbandi. Þessa mjólk hafi hún getað gefið í stað þess að taka hana heim með sér.

Williams, sem er 42 ára og vann 23 risatitla í tennis á sínum glæsta ferli, kveðst afar spennt og ánægð með að geta hjálpað með einhverjum hætti.

„Ég veit um svo margar stórkostlegar konur sem að hafa ættleitt eða geta ekki framleitt mjólk. Þetta var dásamlegt. Og já, einhver þarna úti er að fá algjöra ofurmannamjólk,“ skrifaði Williams. Þau sem á brjóstamjólk þurfa að halda munu ekki hafa getað vitað að hún væri frá Williams.

Færsla hennar féll vel í kramið hjá netverjum: „Einhverjir krakkar eru að fá sterkari bakhönd,“ grínaðist einn af þeim sem skrifuðu ummæli við færslu Williams, og annar skrifaði: „Þetta er „Geitar“-mjólk [e. G.O.A.T. Milk].“

Williams eignaðist sína aðra dóttur, Adiru River Ohanian, í ágúst. Fyrra barn þeirra Alexis Ohanian er Alexis Olympia Ohanian Jr., eða Olympia, sem fæddist í september 2017.

Williams greindi frá því í septemberhefti Vogue árið 2022 að hún hefði ákveðið að leggja tennisspaðann á hilluna, og að hún vildi einbeita sér meira að fjölskyldu sinni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×