Hver og einn Palestínumannanna sem hafa komið sér fyrir á Austurvelli eiga fjölskyldumeðlimi sem eru fastir inn á Gasa en þrátt fyrir að fólkið þeirra hafi fengið dvalarleyfi á Íslandi á grundvelli fjölskyldusameiningar gerist ekki ýkja mikið. Tíminn líður og tala látinna hækkar.

Tíminn á þrotum fyrir fólkið á Gasa
Naji Asar, sem flúði Gasa fyrir fimm árum, er dauðhræddur um fjölskyldu sína. Hann flúði ásamt föður sínum og þremur litlum frændum sínum sem í dag eru sex, tíu og fjórtán ára. Naji segist hafa talað við allar hlutaðeigandi stofnanir en engin skýr svör fáist.
„Allir vita hvernig ástandið er þarna. Við getum misst einhvern okkar á hverri mínútu sem líður,“ segir Naji og gefur fréttamanni dæmi.
„Fyrir tveimur dögum var hús frænda míns sprengt. Við misstum þrjú börn og fjögur börn eru á sjúkrahúsi. Við misstum tvær mæður og öll fjölskyldan mín sefur í tjöldum á götum Rafah. Þar er engan mat að fá. Þar er ekkert hreint vatn, ekkert rafmagn og engin lyf. Við fylgjumst bara með fjölskyldu okkar deyja smám saman.“
Á erfitt með svefn og nærist illa
Tjöldin séu táknræn fyrir þau tjöld sem fjölskyldur þeirra dvelja í á götum Gasa. Hópurinn á Austurvelli ætlar að mótmæla eins lengi og þarf til að fá stjórnvöld til að beita sér með þýðingarmeiri hætti. Naji segist eiga afar erfitt með svefn og koma litlu sem engu niður vegna kvíða og áhyggna af fjölskyldu sinni á Gasa.
Hann vísar til þess þegar íslensk stjórnvöld sóttu 120 Íslendinga til Ísrael í kjölfar árása Hamas og spyr hvers vegna ekki sé hægt að gera eitthvað sambærilegt fyrir fjölskyldu sína sem sé í sárri neyð.
Forgangsmál að koma fólkinu frá Gasa
Lukka Sigurðardóttir, móðir og myndlistarkona, sem er fólkinu frá Palestínu til halds og trausts segir allra mikilvægasta í stöðunni að koma fólkinu frá Gasa.
„Þau hafa bara fengið þau svör að landamærin séu lokuð og ekkert sem hægt sé að gera í því. En það er bara ekki rétt, þau eru alls ekki lokuð. Það er vel hægt að koma þeim út úr Gasa og síðan má koma þeim til Íslands en það þarf að koma þeim út úr Gasa strax,“ segir Lukka.
Fréttastofa hefur fengið þau svör frá félagsmálaráðuneytinu að Alþjóðafólksflutningastofnunin væri meðvituð um dvalarleyfi rúmlega hundrað einstaklinga á grundvelli fjölskyldusameiningar sem séu enn fastir á Gasa. Ekki sé hægt að gera neitt fyrir fólkið fyrr en það getur vitjað leyfanna í Kaíró.