Sport

Littler sá yngsti til að klára níu pílna legg og vann sitt fyrsta mót

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Luke Littler heldur áfram að skrifa pílusöguna.
Luke Littler heldur áfram að skrifa pílusöguna. PDC

Hinn 16 ára gamli Luke Littler heldur áfram að skrifa pílusöguna. Hann vann í kvöld sitt fyrsta mót á vegum PDC-samtakana og varð einnig sá yngsti í sögunni til að klára níu pílna legg í sjónvörpuðum leik.

Littler var að taka þátt í sínu öðru móti á vegum PDC-samtakana, en keppt var á Bahrain Masters mótinu. Hann hóf daginn á fjórðungsúrslitaviðureign gegn Nathan Aspinall þar sem Littler hafði betur, 6-3.

Raunar hefði Littler ekki getað byrjað daginn betur því að hann vann fyrsta legginn með aðeins níu pílum og varð þar með sá yngsti í sögunni til að klára níu pílna legg í sjónvörpuðum leik.

Littler vann svo nokkuð öruggan 7-3 sigur gegn Gerwyn Price í undanúrslitum áður en hann mætti Michael van Gerwen í úrslitum. Þar skiptust þeir félagar á að vinna leggi áður en Littler komst í 5-3 gegn kasti.

Ungstirnið, sem fagnar 17 ára afmæli sínu næstkomandi sunnudag, hélt svo forystunni það sem eftir lifði leiks og vann að lokum 8-5 sigur. Hans fyrsti titill á PDC-mótaröðinni þar með kominn í hús, og gera má ráð fyrir að þetta hafi verið sá fyrsti af mörgum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×