Líkur á eldgosi hafa aukist og reiknað er með kvikuhlaupi á jafnvel næstu dögum. Kristján Már Unnarsson fer yfir stöðuna á Reykjanesi.
Gular viðvaranir vegna rigningar annars vegar og éljagangs hins vegar taka gildi í nótt og á morgun. Við verðum í beinni frá Veðurstofunni og kynnum okkur sérstaka spá.
Smiðja, nýtt skrifstofuhúsnæði Alþingis virðist umdeilt og þingmenn hafa stigið fram og gagnrýnt aðstöðuna. Við förum í skoðunarferð um húsið með Sigmundi Davíð Gunnlaugssyni – sem hefur ýmsar athugasemdir.
Þá verðum við einnig í beinni frá Vesturbæjarlaug þar sem reiknað er með mikilli stemningu í kvöld vegna sundlauganóttar og í Íslandi í dag förum við til Tenerife og kynnum okkur hvað allir þessir Íslendingar eru að bralla á eyjunni.
Kvöldfréttir Stöðvar 2 á samtengdum rásum Bylgjunnar og Stöðvar 2 klukkan 18:30.