Enski boltinn

Lykil­maður Man United frá í átta vikur hið minnsta

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Martínez fór beint inn í klefa eftir að vera takinn af velli vegna meiðsla gegn West Ham.
Martínez fór beint inn í klefa eftir að vera takinn af velli vegna meiðsla gegn West Ham. EPA-EFE/ADAM VAUGHAN

Miðvörðurinn Lisandro Martínez var loks að ná fullum styrk eftir að hafa verið lengi frá vegna meiðsla á þessari leiktíð. Nú er ljóst að hann verður frá í átta vikur og munar um minna hjá enska knattspyrnufélaginu Manchester United sem hefur átt afleitt tímabil til þessa.

Martínez gekk í raðir Man United sumarið 2022 og varð fljótt lykilmaður eftir að margur „spekingurinn“ hafði sagt hann of lítinn til að spila í ensku úrvalsdeildinni. Undir lok síðasta tímabils varð Argentínumaðurinn hins vegar fyrir álagsmeiðslum og þurfti að fara í aðgerð á fæti.

Hann sneri til baka í upphafi núverandi tímabils en ljóst var að hann var ekki búinn að ná fullum bata og þurfti aftur að fara undir hnífinn. Hann var orðinn leikfær að jólatörninni lokinni og hafði spilað undanfarna leiki með Man United þegar áfallið reið yfir.

Í 3-0 sigri Rauðu djöflanna á West Ham United þá lenti Martínez í því að leikmaður Hamranna féll ofan á hann með þeim afleiðingum að það snerist upp á hné miðvarðarins. Hann var tekinn af velli eftir að hafa augljóslega fundið fyrir miklum sársauka og óttaðist stuðningsfólk Man Utd það versta.

Nú hefur komið í ljós að krossböndin eru í lagi en hann tognaði hins vegar á liðböndum í hægra hné og verður frá í átta vikur hið minnsta. Um er að ræða mikið högg en Martínez er allt í öllu hjá Man United, bæði er kemur að varnarleik og fyrsta fasa í uppspili.

Meiðsli hafa elt Man Utd á röndum það sem af er leiktíð og nær allir leikmenn liðsins verið frá vegna meiðsla á einhverjum tímapunkti. Nú þarf Erik ten Hag að finna lausn á fjarveru Martínez sem og að treysta á að hinir miðverðir liðsins haldist heilir en það hafa þeir ekki gert til þessa á leiktíðinni.

Man United hefur unnið síðustu tvö leiki sína í ensku úrvalsdeildinni og er nú í 6. sæti með 38 stig, átta stigum frá Aston Villa í 4. sætinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×