Lán­laust Man United mátti þola tap á heima­velli

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Fulham gerði sér lítið fyrir og sótti þrjú stig á Old Trafford.
Fulham gerði sér lítið fyrir og sótti þrjú stig á Old Trafford. EPA-EFE/PETER POWELL

Manchester United hafði unnið fimm leiki í röð í ensku úrvalsdeildinni en var hvorki fugl né fiskur er liðið tapaði 1-2 fyrir Fulham á Old Trafford í dag. Líkt og áður á leiktíðinni er Man Utd án fjölda leikmanna en það afsakar ekki hörmulega frammistöðu liðsins í dag.

Mikið var rætt og ritað fyrir leik um fjarveru hins danska Rasmus Højlund en hann verður frá næstu vikurnar vegna meiðsla. Í hans stað var hinn 19 ára gamli Omari Forson í byrjunarliðinu. Hann verður ekki gerður að blóraböggli fyrir slakan sóknarleik heimaliðsins í dag en reynslumeiri menn voru að sama skapi algjörlega út á túni framan af leik.

Gestirnir frá Lundúnum fengu hættulegri færi í fyrri hálfleik og áttu meðal annars skot í stöng. Það sama er hægt að segja um síðari hálfleik en heimaliðið var meira með boltann án þess að skapa sér færi. Þegar boltinn tapaðist áttu leikmenn Fulham full auðvelt með að bruna í skyndisóknir og komast í skotfæri.

Það var eftir eina slíka á 65. mínútu sem liðið fékk hornspyrnu en þá hafði André Onana þurft að blaka fyrirgjöf aftur fyrir er hún virtist vera á leið í netið. Upp úr hornspyrnunni féll boltinn fyrir fætur Calvin Bassey sem þrumaði boltanum í netið af tiltölulega stuttu færi.

Miðað við sóknarleik heimaliðsins til þessa voru engar líkur að liðið myndi jafna en á 89. mínútu átti sér stað kraftaverk. Bernd Leno, markvörður Fulham, varði þá fast skot úr þröngu færi út í teiginn og þar var Harry Maguire réttur maður á réttum stað og jafnaði metin.

Þetta mark gaf Man Utd aukna trú og þegar níu mínútum var bætt við fékk stuðningsfólk heimaliðsins von um frækna endurkomu enn og aftur. Heimaliðið ógnaði vissulega meira í uppbótartíma en 90 mínúturnar þar á undan en aftur var liðið galopið til baka.

Það nýttu gestirnir sér þegar varamaðurinn Adama Traoré þaut upp völlinn í skyndisókn á 98. mínútu. Traoré lagði boltann Alex Iwobi sem gat ekki annað en skorað þökk sé slæmum varnarleik Diego Dalot og Amad Diallo. 

Fleiri urðu mörkin ekki á Old Trafford í dag og frábær 2-1 útisigur Fulham staðreynd. Eftir tap dagsins er Man United í 6. sæti með 44 stig, átta stigum frá Aston Villa í 4. sætinu en það gefur þátttökurétt í Meistaradeild Evrópu.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira