Enski boltinn

Ten Hag sagði ein mis­tök hafa kostað Man Utd leikinn

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Erik Ten Hag horfði á lið sitt tapa á heimavelli í dag.
Erik Ten Hag horfði á lið sitt tapa á heimavelli í dag. Vísir/Getty

Erik ten Hag, þjálfari Manchester United, sagði ein mistök hafa kostað sína menn leikinn gegn Fulham í dag er liðin mættust á Old Trafford. Gestirnir skoruðu sigurmarkið þegar lítið var eftir af annars löngum uppbótartíma en fyrir leik dagsins hafði Man Utd verið á fínu skriði í deildinni.

„Þeir áttu innkast við eigin hornfána, við vorum með þá undir pressu en við vorum með einn leikmann út úr stöðu. Sem lið eigum við að gera betur og passa að allir séu í réttri stöðu. Við leyfðum þeim að sleppa (í gegn) og það á að vera hægt að koma í veg fyrir það,“ sagði Ten Hag eftir tap dagsins.

„Liðið sýndi mikinn karakter í að koma til baka, við áttum skilið að jafna og sóttum til sigurs. Leikmenn sýndu hvaða karakter og persónuleika þeir hafa að geyma. Sigurmarkið kom eftir mistök. Þar á undan sóttum við til sigurs og hefðum átt að nýta færin sem við fengum.“

„Við áttum í erfiðleikum með spilamennsku þeirra á vinstri hluta vallarins frá okkur séð. EN við brugðumst vel við, stigum upp úr öftustu línu og þegar við náðum því þá tókum við leikinn yfir og byrjuðum að skapa færi.“

Man United var án leikmann á borð við Lisandro Martínez, Luke Shaw og Rasmus Höjlund í dag. Þá fór Casemiro meiddur af velli.

„Með hópinn sem við höfum þá hefðum við átt að vinna leikinn. Leikurinn var hægur og við verðum að vera tilbúnir frá því að leikurinn er flautaður á.“

„Það er hægt að gagnrýna en liðið sýndi mikinn karakter í báðum hálfleikjum,“ sagði Ten Hag að endingu.

Eftir tap dagsins er Man United í 6. sæti með 44 stig, átta stigum frá Aston Villa í 4. sætinu en það gefur þátttökurétt í Meistaradeild Evrópu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×