Enski boltinn

Salah mættur aftur til æfinga

Valur Páll Eiríksson skrifar
Salah var mættur aftur á æfingasvæðið.
Salah var mættur aftur á æfingasvæðið. Getty

Egyptinn Mohamed Salah var mættur á æfingu hjá Liverpool í dag en hann er á meðal leikmanna liðsins sem eru í kapphlaupi við tímann fyrir stórleik helgarinnar gegn Manchester City.

Myndir af Egyptanum á æfingu dagsins voru birtar á samfélagsmiðlum félagsins í dag, stuðningsmönnum Liverpool eflaust til mikillar gleði.

Salah meiddist á Afríkumótinu með egypska landsliðinu og var frá í um mánuð vegna meiðsla í læri. Þau meiðsli tóku sig upp að nýju eftir sigur Liverpool á Brentford um miðjan febrúar og hefur Salah verið frá síðan.

Salah mun ólíklega taka þátt í leik Liverpool við Spörtu Prag í Sambandsdeildinni á morgun en vonast er til að hann geti spilað gegn Manchester City.

Tveir leikmenn Liverpool sneru aftur síðustu helgi er Ungverjinn Dominik Szobozslai spilaði sinn fyrsta leik um hríð og Darwin Nunez sem skoraði sigurmarkið gegn Nottingham Forest kom einnig til baka eftir meiðsli.

Curtis Jones og Ryan Gravenberch eru báðir frá vegna ökklameiðsla en eru á batavegi. Þó er ólíklegt að þeir taki þátt í leik helgarinnar.

Þá er lengri bið eftir markverðinum Alisson, Englendingnum Trent Alexander-Arnold og Diogo Jota.

Joel Matip er frá út leiktíðina og sömu sögu er að segja af miðjumanninum Thiago Alcantara.

Leikur Sparta Prag og Liverpool í Evrópudeildinni er klukkan 17:45 annað kvöld og verður í beinni á Stöð 2 Sport 2.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×