Enski boltinn

Hrósar Oliver fyrir að brotna ekki og dæma ekki víti á City

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Atvikið umdeilda undir lok leiks Liverpool og Manchester City.
Atvikið umdeilda undir lok leiks Liverpool og Manchester City. getty/Alex Livesey

Kyle Walker, fyrirliði Manchester City, hrósaði Michael Oliver, dómara viðureignarinnar gegn Liverpool, fyrir að dæma ekki vítaspyrnu á Jérémy Doku þegar hann sparkaði í Alexis Mac Allister undir lok leiks.

Liverpool-menn voru afar ósáttir að fá ekki víti en þrátt fyrir að Doku hafi sparkað í bringuna á Mac Allister dæmdi Oliver ekki neitt. Myndbandsdómarinn var á sömu skoðun.

Walker var aftur á móti einkar sáttur með Oliver og í viðtali á Sky Sports hrósaði hann honum fyrir að standast pressuna og dæma ekki víti.

„Mér fannst dómarinn gera mjög vel. Hann hefði getað brotnað með fólkið á Anfield á bakinu en þetta sýnir reynslu hans og karakter,“ sagði Walker.

„Þess vegna er hann talinn einn af bestu dómurum Englands og bestu dómurum heims í augnablikinu.“

Walker steig svo varlega til jarðar er hann var spurður hvort Doku hefði átt að fá á sig víti þegar hann sparkaði í Mac Allister.

„Það er ekki mitt að segja. Ef ég segi að þetta hafi ekki verið víti verður það að fyrirsögn. Ef ég segi að þetta hafi verið víti verður það að fyrirsögn,“ sagði Walker.

City er í 3. sæti ensku úrvalsdeildarinnar með 63 stig, einu stigi á eftir Arsenal og Liverpool þegar tíu leikir eru eftir af tímabilinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×