Aftur tryggði Bellingham sigur á loka­mínútum El Clásico

Ágúst Orri Arnarson skrifar
Jude Bellingham hefur reynst Real Madrid vel í stórleikjum þessa tímabils.
Jude Bellingham hefur reynst Real Madrid vel í stórleikjum þessa tímabils. David Ramos/Getty Images

Real Madrid fór langleiðina með að tryggja sér titilinn í spænsku úrvalsdeildinni. Þeir lögðu Barcelona 3-2 að velli í kvöld. Líkt og í fyrri leik liðanna skoraði Jude Bellingham sigurmarkið í uppbótartíma. 

Andreas Christensen kom Börsungum yfir strax á 6. mínútu. Markið kom eftir hornspyrnu sem Raphinha tók og fleytti yfir á fjærstönginni, markvörður Real Madrid misreiknaði flugið og missti boltann yfir sig, Christensen stýrði honum svo í netið með kollspyrnu.

Liðin skiptust á góðum færum næstu mínúturnar og svo á 18. mínútu fiskaði Lucas Vazquez vítaspyrnu fyrir Madrídinga. Vinicius Jr. steig á punktinn og skoraði af öryggi. Markmaðurinn fór í rétt horn en náði ekki til boltans.

Áfram var leikurinn opinn á báða enda og afar spennandi. Börsungar héldu að þeir hefðu skorað á 30. mínútu en eftir langa myndbandsskoðun sást að boltinn fór ekki allur yfir línuna. Það var því allt jafnt, 1-1, þegar flautað var til hálfleiks.

Miðjumaðurinn Fermin Lopez kom inn á í hálfleik. Á 69. mínútu skoraði hann svo og tók forystuna aftur fyrir Barcelona. Markið kom eftir varið skot frá Lamine Yamel sem Lopez fylgdi eftir.

Aðeins fjórum mínútum síðar jafnaði Real Madrid á nýjan leik. Lucas Vazquez, sem fiskaði vítaspyrnu fyrir Vinicus í fyrri hálfleik, skoraði markið eftir frábæra fyrirgjöf Vinicius Jr..

Það var svo Jude Bellingham sem kom boltanum í netið fyrir Real Madrid í uppbótartíma eftir sendingu frá sjóðheitum Lucas Vazquez.

Staðan í deildinni er nú svo að Real Madrid er með 11 stiga forskot í efsta sætinu. Sex umferðir eru óspilaðar, Real Madrid þarf því átta stig í viðbót til að tryggja sér titilinn, fari svo að Barcelona vinni alla sína leiki. 


Tengdar fréttir

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira