Þetta kemur fram í könnun sem Prósent gerði þar sem spurt var hvaða frambjóðendur áhorfendum fannst standa sig best í kappræðunum. Hægt var að haka við allt að þrjá frambjóðendur og hökuðu flestir við Höllu Tómasdóttur.
Í sömu könnun kemur fram að 39 prósent þjóðarinnar hafi horft á kappræðurnar, 28 prósent að hluta en 33 prósent horfðu ekki.
Flestum eða 53 prósent svarenda fannst Halla Tómasdóttir standa sig best, 42 prósent völdu Baldur Þórhallsson, 40 prósent Katrínu Jakobsdóttur, 27 prósent Jón Gnarr, 23 prósent Höllu Hrund Logadóttur, 20 prósent Arnar Þór Jónsson, 16 prósent Steinunni Ólínu Þorsteinsdóttur, 10 prósent Viktor Traustason, 6 prósent Ásdísi Rán Gunnarsdóttur, 3 prósent Helgu Erlu Þórisdóttur, 2 prósent Ástþór Magnússon Wium og 1 prósent Eirík Inga Jóhannsson.

Þegar horft er til búsetu þá fannst marktækt fleirum í nágrannasveitafélögum Reykjavíkur Halla Tómasdóttir standa sig best. Marktækt fleirum í Reykjavík en annars staðar á landinu fannst Jón Gnarr standa sig best.
Marktækt fleirum á landsbyggðinni en í Reykjavík og nágrannasveitarfélögum fannst Halla Hrund Logadóttir standa sig best og marktækt fleirum á landsbyggðinni fannst Steinunn Ólína Þorsteinsdóttir standa sig best heldur en í nágrannasveitarfélögum Reykjavíkur.
Gögnum var safnað frá 7. til 12. maí en um er að ræða netkönnun meðal könnunarhóps Prósents. Úrtakið var 2500 einstaklingar átján ára og eldri en svarhlutfall var 51,2 prósent. Gögn eru vigtuð til að úrtak endurspegli álit þjóðarinnar. Tekið er tillit til kyns, aldurs og búsetu.