Verkefnið kallast „Barnabókahetjur heimsins” og hófst á síðasta ári en tilgangur þess er að bókasafnið eigið bækur á öllum þeim tungumálum, sem töluð eru í leik- og grunnskólum sveitarfélagsins, eða 40 talsins og nú er það takmark að nást smátt og smátt. Af því tilefni klæddi starfsfólk sig upp í búninga nýlega og gladdist þannig með lánþegum safnsins.
„Og markmiðið með þessu er náttúrulega að sýna fram á hvað Árborg er orðið fjölbreytilegt og æðislega skemmtilegt samfélag, litríkt og á bak við hvert einasta tungumál er náttúrulega heill menningarheimur, sem eru náttúrlega verðmæti , sem eru okkur öllum til góða,” segir Margrét Blöndal, deildarstjóri menningar- og upplýsingadeildar Árborgar.
En hvaða bækur vekja hvað mesta athygli?
„Við eigum til dæmis Karíus og Baktus á hebresku, það eru örugglega ekki margir sem hafa séð það. Við erum líka með Grískarbækur, við erum með japanskar já bara nefndu það.”

Margrét segir verkefnið „Barnabókahetjur heimsins” ótrúlega skemmtilegt og gefandi og að það hafi algjörlega slegið í gegn á bókasafninu.

„Já, við viljum vera svona staður þar sem fólki finnst gott að koma og svona. Hér má flissa og hlægja og hoppa og skríkja, sem var nú ekki í gamla daga á bókasafninu á Akureyri get ég sagt þér,” segir Margrét skellihlæjandi.
