Í hugleiðingum veðurfræðings fyrir daginn segir að allhvöss eða hvöss suðaustanátt verði á vestanverðu landinu í dag. Varasamt ferðaveður verði fyrir ökutæki sem taka á sig mikinn vind og lausamunir muni geta fokið.
Veðurfræðingurinn reyndist sannspár að þessu sinni, enda hefur Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu þegar greint frá því að trampólín hafi fokið í Kópavogi.
„Eins og sést á þessari mynd hefur einhver tapað trampólíni nú þegar sem getur skapað öðrum mikla hættu. Biðjum ykkur að fara yfir stöðuna í garðinum og festa það sem þarf að festa,“ segir í færslu lögreglu.
Gul viðvörun allt fram á morgun
Á vef Veðurstofunnar má sjá að gul viðvörun tekur gildi á höfuðborgarsvæðinu, Faxaflóa, Breiðafirði og miðhálendinu klukkan átta. Þar er spáð suðaustanátt, þrettán til átján metrum á sekúndu á höfuðborgarsvæðinu en allt að 25 metrum á miðhálendinu.
Viðvörun gildir til klukkan 03 í nótt á höfuðborgarsvæðinu og Faxaflóa, 05 á miðhálendinu og 08 á morgun á Breiðafirði.
Á morgun er spáð suðaustan átta til fimmtán en heldur hvassari á Snæfellsnesi. Dálítilli rigning eða súld í flestum landshlutum en bjart með köflum norðaustanlands. Hita átta til átján stigum, hlýjast á Norðausturlandi.
Veðurhorfur á landinu næstu daga:
Á laugardag:
Suðaustan 8-15 m/s, en sums staðar hvassara við fjöll vestantil. Súld eða dálítil rigning með köflum. Hiti 10 til 15 stig. Heldur hægari vindur á norðanverðu landinu og bjart að mestu með hita að 20 stigum.
Á sunnudag:
Suðaustlæg átt 5-13 og dálítil væta sunnan- og vestanlands en bjart að mestu norðaustantil. Hiti 12 til 18 stig.
Á mánudag og þriðjudag:
Hæg breytileg átt. Skýjað með köflum og sums staðar dálítil væta. Líkur á þokumóðu við ströndina. Hiti 7 til 16 stig, hlýjast inn til landsins.
Á miðvikudag:
Norðlæg átt 3-10. Lítilsháttar rigning norðan- og austanlands. Bjart með köflum og stöku skúrir sunnan heiða. Hiti 8 til 15 stig, hlýjast sunnantil.
Á fimmtudag:
Útlit fyrir norðvestlæga átt. Skúrir á víð og dreif en samfelld rigning austanlands. Hiti breytist lítið.