Innlent

Stækka gjaldsvæði eitt og tvö á bíla­stæðum í Reykja­vík

Lovísa Arnardóttir skrifar
Seljavegur verður á gjaldstæði P-2.
Seljavegur verður á gjaldstæði P-2. vísir/hjalti

Stækka á gjaldsvæði 2 á bílastæðum í Reykjavík innan tíðar. Einnig verður stækkun á gjaldsvæði 1 við Háskóla Íslands. Stækkun gjaldssvæði við HÍ kemur til vegna þess að almenn gjaldtaka hefst á bílastæðum við skólann í haust.

Að leggja í P-2 kostar 220 krónur á klukkustund. Rukkað er fyrir að leggja á svæðinu á milli 9 og 21 virka daga og 10 og 21 laugardaga og sunnudaga. 

Í tilkynningu frá borginni segir að talningar frá því í árslok 2023 sýni mikla og stöðuga nýtingu bílastæða á jöðrum núverandi gjaldsvæða. Þá segir að áður en gjaldið verði innheimt verði viðeigandi merkingum komið upp og greiðslubúnaði þar sem þörf er á. Breytingarnar verða kynntar vel áður en gjaldskylda verður tekin upp.

Breytingarnar voru samþykktar á fundi umhverfis og skipulagsráðs Reykjavíkurborgar í morgun.

Í tilkynningu borgarinnar er jafnframt minnt á að íbúar á gjaldskyldum svæðum geta sótt um íbúakort að uppfylltum vissum skilyrðum. Íbúakort gefur handhafa þess heimild til þess að leggja bifreið sinni án endurgjalds á gjaldskyldu svæði innan gildissvæðis korts síns.

Um er að ræða eftirfarandi stækkanir gjaldsvæða:

Gjaldsvæði 1

• Sturlugata

Gjaldsvæði 2

• Aragata

• Egilsgata, bílaplan við Hallgrímskirkju

• Eiríksgata, bílaplan við Hallgrímskirkju

• Oddagata

• Seljavegur

• Sæmundargata

• Vesturgata milli Ánanausta og Stýrimannastígs


Tengdar fréttir

Frum­skógur bíla­stæða­gjalda og þau hæstu þúsund krónur

Félag íslenskra bifreiðaeigenda segir villta vestrið ríkja í gjaldtöku á bílastæðum. Neytendur standi frammi fyrir sífellt fleiri greiðslulausnum en engin gildi þó á öllum bílastæðum. Neytendastofa hefur ákveðið að rannsaka málið.

Villta vestrið í gjaldtöku bílastæða

Neytendastofa hefur ákveðið að rannsaka gjaldtöku á bílstæðum eftir að FIB benti á ófremdarástand á markaðnum. Framkvæmdastjóri félagsins segir neytendur verða fyrir barðinu á græðgisvæðingu og frumskógi innheimtuleiða.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×