Skoðun

Hin hljóða milli­stétt

Bjarki Ómarsson skrifar

Um þessar mundir standa yfir kjarasamningsviðræður ýmissa stéttarfélaga háskólamenntaðra. Koma þær í kjölfar samninga Breiðfylkingarinnar og SA. Fyrrnefndar samningaviðræður fara ekki hátt í fjölmiðlum og þykja greinilega ekki nógu mikið fréttaefni. Ætla má að áhugaleysi fjölmiðla endurspegli það álit, sem er furðu almennt, að ekki þurfi að hækka launin hjá háskólamenntuðum, sem geti fullvel þegið það sama og aðrir hafa samið um.

Þessi hópur fólks myndar kjarnann í millistéttinni og heyrist minnst í þegar kemur að kjarasamningsviðræðum. Þó er það nú þannig að á Íslandi er launamunur milli háskólamenntaðra og ófaglærðra 17%, sem er minnsti munur í samanburðarlöndum. Næst á eftir er Danmörk með 25% mun og þar á eftir Noregur með 36% mun. Þessi munur er talsvert hærri í öðrum löndum og mestur á Ítalíu, 71%. Frá árinu 2000 – 2021 jókst kaupmáttur fólks sem er aðeins með grunnmenntun um 44% en á sama tíma jókst kaupmáttur fólks með meistarapróf úr háskóla einungis um 1%. Hjá verkfræðingum er staðan enn verri því á sama tíma var kaupmáttaraukning þeirra -1%. Kaupmáttur verkfræðinga dróst semsagt saman um 1%. Þessi munur eftir menntunarstigi skýrist að miklu leyti af krónutöluhækkunum síðustu nokkurra kjarasamninga, sem voru vægast sagt óhagstæðir háskólamenntuðum.

Háskólamenntun er ekki metin mikils á Íslandi og það letur ungt fólk til náms. Enda skiljanlegt að það vilji ekki stofna til milljóna skulda í námslánum fyrir ekki meiri umbun en þetta. En er það þróun sem við sem samfélag viljum sjá?

Það er tími til kominn að háskólamenntaðir láti í sér heyra og sætti sig ekki lengur við að kjör þeirra séu skert öðrum hópum til hagsbóta.

Höfundur er í stjórn Kjaradeildar Verkfræðingafélags Íslands.

(Heimild: Hagstofan og Hagfræðistofnun Íslands).




Skoðun

Sjá meira


×