Veður

Gul við­vörun á Aust­fjörðum og Suð­austur­landi

Lovísa Arnardóttir skrifar
Það er ráðlegt að fara með gát vegna vinds á Austfjörðum og Suðausturlandi í dag.
Það er ráðlegt að fara með gát vegna vinds á Austfjörðum og Suðausturlandi í dag. Vísir/Vilhelm

Í dag er allhvöss og hvöss norðvestanátt og rigning, hvassast á Austfjörðum og undir Vatnajökli. Gular viðvaranir eru í gildi vegna vinds og ráðlagt að fara með gát, einkum þegar ferðast er með aftan í vagna. Viðvörunin rennur úr gildi snemma á laugardagsmorgun.

Fram kemur í hugleiðingum veðurfræðings að vestantil á landinu sé hægari vindur og skýjað með köflum en léttir heldur til er líður á daginn. Hiti frá fimm stigum í þokulofti við norðurströndina að 20 stigum á Suðurlandi þar sem sólar nýtur við.

Á morgun verður breytileg átt og að mestu bjart en norðaustantil verður minnkandi norðvestanátt og rigning og orðið skaplegt veður þar síðdegis.

Nánar á vef Veðurstofunnar og færð vega á vef Vegagerðarinnar. 

Veðurhorfur á landinu næstu daga

Á laugardag:

Breytileg átt, 3-8 m/s og þurrt og bjart veður, en norðvestan 8-13 og rigning eða súld austantil fram eftir degi. Hiti frá 5 stigum norðaustanlands að 20 stigum syðst á landinu.

Á sunnudag:

Suðlæg átt 3-8 m/s, og víða bjartviðri en 8-13 m/s og rigning vestantil síðdegis. Hiti 10 til 22 stig, hlýjast um landið norðaustanvert.

Á mánudag:

Suðvestlæg eða breytileg átt 3-10 m/s og rigning eða súld, en birtir til sunnan- og vestanlands um kvöldið. Hiti 9 til 17 stig.

Á þriðjudag, miðvikudag og fimmtudag:

Breytileg átt og skúrir í öllum landshlutum. Hiti 9 til 16 stig.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×