Hér erum við að tala um sveitastrák úr Austur Húnavatnssýslu, nú búsettur á Selfossi,, sem heitir Hákon Þór Svavarsson en hann hefur haldið sig meira og minna síðustu mánuði á æfingasvæði Skotíþróttafélags Suðurlands rétt við Þorlákshöfn við æfingar með því að skjóta leirdúfur með sérstökum tæknibúnaði.
„Þetta er raddstýribúnaður svo ég geti verið einn að æfa. Ég ýti bara á takka og gefa frá mér eitthvað hljóð og þá koma dúfurnar. Við eigum að skjóta 125 skotum á Ólympíuleikunum og það eru 25 skot í hverri umferð og það eru sex saman í hverjum hóp. Við byrjum á palli eitt, fyrsti klárar hann og svo bara koll af kolli,” segir Hákon Þór.
Og allir keppendur í skotfiminni eru atvinnumenn nema Hákon Þór.
„Og það má ekkert klikka, ef þú ætlar að komast í úrslit þá máttu helst bara klikka á einu skoti,” bætir hann við.

En hverju þakkar Hákon Þór helst hvað hann er góður og hittinn með byssuna?
„Ætli það sé ekki bara þrjóska og æfa mikið og svo er maður náttúrulega með gott fólk í kringum sig, þú gerir ekkert án þess.”
Hákon hefur keppni á Ólympíuleikunum 2. ágúst klukkan níu um morgunin og hann mun líka keppa 3. ágúst.
Heldur þú að þú farir ekki að skæla þegar þjóðsöngurinn verður sungin?
„Alveg pottþétt, það verður bara stórt handklæði með svona til öryggis,” segir hann og skellihlær.
Og byssan, sem Hákon Þór mun skjóta úr er fullkominn og góð, enda kostaði hún um tvær milljónir króna. Fjölskylda Ólympíufarans ætla að fylgja honum til París og eiginkonan er að sjálfsögðu að rifna úr stolti yfir sínum manni.
„Hann er bara duglegur, röskur og samviskusamur,” segir Birna Jóhanna Sævarsdóttir, eiginkona Hákons Þórs og kennari á Selfossi.

