Fram kemur í hugleiðingum veðurfræðings að á morgun verði svipað veður. Á norðvestanverðu landinu muni þó bæta í úrkomu og hvessa síðdegis. Þá verði tíu til 18 metrar á sekúndu og hvassast á norðanverðu Snæfellsnesi, á fjallvegum á Vestfjörðum, og einnig á til dæmis Holtavörðuheiði.
Þessar aðstæður geti verið varhugaverðar fyrir vegfarendur með aftanívagna eða á ökutækjum sem taka á sig mikinn vind. Fólki er bent á að sýna varkárni og fylgjast vel með veðurspám.
Nánar um veðrið á vef Veðurstofunnar og færð vega á vef Vegagerðarinnar.
Veðurhorfur á landinu næstu daga
Á miðvikudag og fimmtudag:
Suðvestan 8-15 m/s, hvassast norðvestantil og með suðausturströndinni. Súld eða rigning með köflum, en yfirleitt léttskýjað á Austurlandi. Hiti 9 til 20 stig, hlýjast norðaustantil.
Á föstudag:
Sunnan og suðvestan 8-15, rigning og hiti 9 til 15 stig, en léttskýjað og hiti 15 til 22 stig fyrir austan. Dregur úr úrkomu um kvöldið.
Á laugardag:
Sunnan og suðvestan 5-13 en heldur hvassari vestast á landinu. Skýjað og dálítil væta en hægari og bjart veður fyrir austan. Heldur hlýrra.
Á sunnudag:
Suðlæg eða breytileg átt og víða léttskýjað, en líkur á þoku á Austfjörðum. Hiti 12 til 22 stig, hlýjast inn til landins.
Á mánudag:
Útlit fyrir norðaustlæga átt. Sums staðar þoka með ströndum, einkum fyrir norðan og austan, annars bjartviðri. Hlýtt í veðri.