UEFA Youth League er unglingaliðsútgáfan af Meistaradeild Evrópu. Þar sem Stjarnan er Íslandsmeistari drengja í knattspyrnu frá því á síðasta ári fékk félagið þátttökurétt í ár.
Keppnin er tvískipt þar sem landsmeistarar hvers lands fyrir sig mætast í útsláttarkeppni á meðan U-19 ára lið þeirra félaga sem eru nú þegar í deildarkeppni Meistaradeildar Evrópu mæta sömu liðum og aðallið þeirra mætir.
Stjarnan dróst gegn UCD frá Írlandi og þrátt fyrir erfitt gengi undanfarið í A-deild 2. flokks hefur liðið hugsað sér gott til glóðarinnar. Annað kom á daginn en heimamenn reyndust of stór biti í kvöld.
Adam Brennan kom heimamönnum yfir í fyrri hálfleik og í þeim síðari skoraði Odhran Maclaughlin tvívegis, lokatölur 3-0 og brekkan brött fyrir seinni leikinn.